Solo Performance Festival
Leikur einn á Suðureyri
Kómedíuleikhúsið Hafa samband English
Dagskrá Hátíðin Fréttir

Micheál MacLiammóir

Höfundur:

Elfar Logi

Einleikurinn hefur lengi verið í hávegum hafður á Írlandi og notið mikilla vinsælda áhorfenda sem listamanna. Einn af merkari einleikurum Írlands á 20. öldinni er Micheál MacLiammóir sem var frægur fyrir túlkun sína á landa sínum Oscar Wilde. Hann er ekki bara þekktur fyrir einleiki sína því hann var mjög fjölhæfur listamaður samdi bæði leikrit og ljóð var liðtækur málari hannaði leikmyndir og síðast en ekki síst stofnaði hann Gate leikhúsið í Dublin. Óhætt er að segja að hann hafi haft gífurleg áhrif á leikhúslífið á Írlandi í þau 50 ár sem hann starfaði þar.

Hann fæddist 25. október árið 1899 í Kensal skammt frá London og var skírður Alfred Willmore. Hann var af írskum ættum og var allatíð upptekinn af Írlandi og stúderaði land og þjóð. Það leið því ekki á löngu þar til hann breytti nafni sínu á írska vísu eða Micheál MacLiammóir. Á æskuárunum var hann byrjaður að leika og varð fljótlega kunn barnastjarna á leiksviðum Lundúna. Samhliða leikarastarfinu stundaði hann myndlistarnám sem átti eftir að nýtast honum alla tíð. Sérstaklega þegar hann byrjaði að hanna leikmyndir og búninga í eigin leikhúsi nokkru síðar. Þegar hann var á leikferð með ónefndum leikhópi sem mágur hans stjórnaði lá leið þeirra til Írlands. Þetta var mikil örlagaferð og má segja að þarna hafi listamannsferill hans hafist fyrir alvöru. Hann fór ekki með leikhópnum aftur heim til London heldur ákvað að setjast að í Dublin. Fljótlega komst hann í kynni við leikhúslistamanninn Hilton Edwards. Sú vinátta átti eftir að endast ævilangt ekki bara í leikhúsinu því þeir áttu einnig í ástarsambandi. Árið 1928 stofnuðu þeir eigin leikhús Gate Theatre í Dublin þar sem sett voru á svið ný leikverk í bland við klassísk verk bæði írsk og alþjóðleg. Leikhúsið vakti fljótlega athygli víða um heim fyrir uppfærslur sínar og þá ekki síst fyrir leikmyndir og búninga sem MacLiammóir var höfundurinn af. Auk þess að hanna leikmyndir og búninga lék hann mörg veiagmikil hlutverk t.d. Hamlet. Félagi hans Edwards var hins vegar meira hinu megin við borðið og þá oft í leikstjórastólnum. Gate leikhúsið er rekið enn þann dag í dag og er löngu orðið heimsþekkt. Fjölmargir leikarar hafa hafið feril sinn þar þeirra á meðal eru Orson Welles og James Mason. Einleikir hafa ósjaldan verið á efnisskrá leikhússins og þar ruddi MacLiammóir sjálfsögðu brautina með Oscar Wilde leik sínum og fleiri leikjum úr eigin smiðju. Af nýlegum einleikjauppfærslum Gate leikhússins má nefna Síðasta segulband Krapps eftir Samuel Beckett með eðalleikaranum John Hurt og I’ll Go On byggt á sögum Becketts með Barry McGovern. Samuel Beckett hefur verið vinsæll höfundur hjá leikhúsinu sem hefur reglulega sýnt verk meistarans. Einn af ungu leikurum leikhússins áðurnefndur Orson Wells kallaði á meistara sinn MacLiammóir og réð hann í tvö verkefni. Fyrst var það stórmyndin Othello, 1952, með Wells í aðalhlutverkinu bæði fyrir framan og aftan tökuvélina. MacLiammóir í hlutverki Iago sem þótti nokkuð kúnstugt val þar sem leikarinn var um fimmtugt en sögupersónan á að vera rétt um þrítugt. Wells var hinsvegar vanur að fara sínar eigin leiðir einsog frægt er. Ári síðar leikstýrði Orson honum á nýjan leik í sjónvarpsmyndinni King Lear byggt á samnefndu verki eftir Shakespeare líkt og fyrra verkefnið. Síðast en ekki síst var MacLiammóir liðtækur penni ritaði allmörg verk m.a. leiklistarsögu Írlands og eina þrjá einleiki.

MacLiammóir hafði verið hvattur til þess af félögum sínum í nokkurn tíma að setja á svið einleik. Það fannst honum fráleitt en hann hafði séð einleikarana Ruth Draper og Emylyn Willimas á sviði og taldi þvílíka fásinnu að reyna að bæta þar einhverju við. Hann lét þó tilleiðast eftir nokkurt þras og tók áskorun félaga sinna. Fyrsti einleikur MacLiammóir er sóttur í írskan sagna- og menningarsjóð enda ekki við örðu að búast þar sem hann hafði mikið dálæti af landi og þjóð einsog áður hefur komið fram. Það var svo sem ekkert verið að stefna á neina dægurflugu því viðfangsefnið var skáldið orðheppna Oscar Wilde. MacLiammóir var líka orðheppinn einsog nafn einleiks hans um skáldið gefur til kynna eða The Inportance of Being Oscar og er þar að sjálfsögðu tilvitun í þekktasta verk Wilde The Inportance of Being Ernst. Verkið er byggt ævi, bréfum og verkum skáldsins ljóðum sem og leikritum. Meðal leikverka sem koma við sögu eru Dorian Gray og að sjálfsögðu Importance of Being Ernst. Samstarfsamaður hans og elskhugi Hilton Edwards leikstýrði verkinu og átti hann einnig eftir að leikstýra hinum tveimur sem á eftir fylgdu. The Inportance of Being Oscar var frumsýnt á Leiklistarhátíðinni í Dublin 15. september árið 1960. Viðtökurnar létu ekki á sér standa og við tók flakk um heiminn næstu árin. Leikurinn var hljóðritaður og gefinn út á tveimur hljómplötum auk þess sem handritið var gefið út á bók árið 1963. Ári síðar var gerð upptaka fyrir sjónvarp. Fjölmargir leikarar hafa glímt við verkið allar götur síðan má þar nefna Simon Callow. Árið 1963 frumsýndi MacLiammóir nýjan einleik og enn var sótt í sagnasjóð Írlands. Leikurinn heitir I Must Be Talking to My Friends og inniheldur sögulega þætti frá Írlandi úr ýmsum áttum auk þess sem vitnað er í skáldverk helstu penna landsins. Leikstjóri var eftir sem áður Hilton Edwards. Leikurinn fékk glimrandi viðtökur og því var hafist handa við undirbúning að þriðja einleiknum. Varla þarf að taka fram hvert viðfangsefnið var sótt og nú var það eitt þekktasta skáld Írlands meistari William Butler Yeats. Skáldið hafði haft mikil áhrif á MacLiammóir í upphafi listamannsferils hans og var því efnið honum bæði vel kunnugt og kært. Leikinn nefndi hann einfaldlega Talking About Yeats og var síðasti einleikur hans. Þó leikirnir þrír hafi fengið góðar viðtökur stóð þó sá fyrsti, The Inportance of Being Oscar, fremstur í flokki og er sá leikur jafnan hafður inná topp tíu einleikjalista 20. aldar.

Micheál MacLiammóir andaðist 6. mars árið 1978.

BÆKUR
The Boy's: A Biography of Micheál MacLiammóir and Hilton Edwards, Christopher Fitz-Simon 2002