Solo Performance Festival
Leikur einn á Suðureyri
Kómedíuleikhúsið Hafa samband English
Dagskrá Hátíðin Fréttir

Um hátíðina

Leiklistarhátíðin ACT ALONE er haldin árlega í sjávarþorpinu Suðureyri aðra helgina í ágúst. ACT ALONE er helguð einleikjum og er meðal fárra slíkra í heiminum sem helga sig þessu sérstaka leikhúsformi. Það er ekki eina sérkenni hátíðarinnar því frá upphafi hefur verið ókeypis á ACT ALONE og gefst því fólki frábært tækifæri á að komast frítt í leikhús og um leið að kynna sér þetta sérstaka leikhúsform. 

Upphafið að ACT ALONE hátíðinni er stutt og einleikin saga en ævintýrið hefur þó heldur betur verið skrautlegt. Það var í byrjun maí 2004 sem einleikarinn Elfar Logi fékk þá flugu í höfuðið að halda einleikjahátíð á Ísafirði. Hann hafði þá sjálfur leikið í nokkrum einleikjum hjá Kómedíuleikhúsinu. Nú einsog allir vita þá eru Vestfirðingar þekktir fyrir að vera furðufuglar og skjótir til verka. Nokkrum símtölum síðar og ýmiskonar reddingum og pælingum, nánar tiltekið mánuði síðar, var haldin einleikjahátíð á Ísafirði. Hátíðin var haldin í lok júní í Hömrum, sal Tónlistarskólans á Ísafirði. Á dagskránni voru þrír íslenskir einleikir og einnig var haldin fyrirlestur um einleiksformið. Hátíðin heppnaðist mjög vel og var þegar ákveðið að halda aðra hátíð að ári. 

Önnur ACT ALONE hafði mun viðameiri dagskrá en sú fyrsta en þar voru einir 10 einleikir og þar á meðal var gestaleikur frá Króatíu og að auki voru haldnir fyrirlestrar. Kvikmyndafyrirtækið digi-Film á Ísafirði gerði heimildarmynd um hátíðina. Myndin heitir Leikur einn í leikstjórn Jóhannesar Jónssonar og var myndin sýnd í Sjónvarpinu í október árið 2006. 

Þriðja ACT ALONE hátíðin var ekki síður einleikin og glæsileg. Boðið var uppá hvorki fleiri né færri en 13 einleiki, tíu íslenska og þrjá erlenda. Óhætt er að segja að sýningarnar hafi verið mjög ólíkar og fjölbreyttar og gáfu góða mynd af því hve margþætt einleikjaformið er. Tvær nýjungar voru á ACTINU. Fyrst ber að nefna leiklistarnámskeið sem tveir af erlendu listamönnunum stýrðu. Einnig var haldin bókamarkaður þar sem í boði voru ýmiskonar verk er tengjast leiklist. 

Fjórða ACT ALONE hátíðin var mjög vegleg - reyndar var dagskráin svo viðamikil að ákveðið var að bæta einum degi við hátíðina. Enda voru sýningar alls 20 talsins auk þess voru haldin leiklistarnámskeið, málþing og fyrirlestur.

Fimmta ACT ALONE hátíðin var haldin með miklum bravúr árið 2008 þar sem boðið var uppá fleiri sýningar en nokkru sinni áður eða 24 talsins. 

Sjötta ACT ALONE var haldin á Ísafirði og í Dýrafirði og voru sýningarnar aðeins færri en árið áður eða samtals átta.

Sjöunda ACT ALONE var aftur haldin bæði á Ísafirði og í Dýrafirði og voru tíu sýningar það árið.

Áttunda ACT ALONE var haldin á Hrafnseyri og á Ísafirði og voru sýningarnar níu talsins.

Níunda ACT ALONE var haldin 2012 og það ár var ákveðið að halda hátíðina á Suðureyri um óákveðinn tíma þökk sé gestrisni heimamanna. Auk þess sem við eignuðumst öflugan bakhjarl sem er Fisherman á Suðureyri. Hátíðin var lengd um einn dag og var sýnt frá fimmtudegi til sunnudags. 18 atriði voru í boði það árið.

Tíunda ACT ALONE var aftur haldin á Suðureyri og var metaðsókn á tíundu hátíðinni. Yfir 2300 sýningargestir komu að sjá 18 atriði og fóru allir sáttir heim.

Ellefta ACT ALONE var haldin á Suðureyri og enn var metaðsókn á hátíðina. Um 2800 sýningargestir sóttu hátíðina en boðið var uppá 20 einleikna viðburði, leiklist, dans, ritlist, gjörninga, myndlist ofl.

Tólfta ACT ALONE var haldin á Suðureyri og enn eitt árið var aðsókn met slegið en um 3000 sýningargestir sóttu hátíðina. Boðið var uppá 21 einstakan viðburð, leiklist, dans, ritlist, gjörning og margt fleira einleikið.

Þrettánda ACT ALONE var haldin á Suðureyri við einstaklega góða asókn. Boðið var uppá 16 einstaka viðburði leiklist, dans, myndlist og allskonar einleikið.

Fjórtánda ACT ALONE var haldin á Suðureyri nema hvað. Enn voru slegin met í aðsókn. Boðið var uppá 20 fjölbreytta og einstaka viðburði.

Fimmtánda ACT ALONE var haldin í einleikjaþorpinu Suðureyri. Yfir 3000 manns sóttu þá 22 einstöku viðburði sem boðið var uppá. 

Sextánda ACT ALONE var haldin í sjávarþorpinu Suðureyri. Vel yfir 3000 manns sóttu þá 33 viðburði sem voru í boði og hefur dagskráin aldrei verið jafn vegleg. 

Gaman er að geta þess að Act alone fékk Menningarverðlaun DV árið 2008 og var tilnefnd til Eyrarrósarinnar, 2013 og 2019. 

Stjórn ACT ALONE skipa Þórhildur Þorleifsdóttir, Guðrún Oddný Schmidt, Leifur Blöndal, Rúnar Guðbrandsson og Sigurður Pétursson. Listrænn stjórnandi er Elfar Logi Hannesson.

Gerum ACT ALONE að enn betri hátíð og munið að setja hring á dagatalið þegar hátíðin verður haldin. Sjáumst 6.-8. ágúst 2020 í einleikjaþorpinu Suðureyri.