Solo Performance Festival
Leikur einn á Suðureyri
Kómedíuleikhúsið Hafa samband English
Dagskrá Hátíðin Fréttir

Lily Tomlin

Höfundur:

Elfar Logi

Gamanleikkonan Lily Tomlin er einkum þekkt hér á landi fyrir framlag sitt á hvíta tjaldinu í mörgum vinsælum myndum og sjónvarpsþáttum nú síðast West Wing. Árið 1985 lék hún í einleik á Broadway sem átti eftir að vekja mikla athygli og slá öll aðsóknarmet.

Lily Tomlin eða Mary Jean Tomlin einsog hún heitir fullu nafni er frá Detroit í Bandaríkjunum, fædd 1. september árið 1939. Á menntaskólaárunum vaknaði áhugi hennar á leikhúsinu og hún tók þátt í kabarett sýningum skólans. Í einum leikjanna kom hún fram sem persóna að nafni The Tastefull Lady og hefur hún fylgt henni allar götur síðan. Næstu árin átti hún eftir að skapa margar ógleymanlegar persónur bæði í leikhúsinu og í sjónvarpi. Að námi loknu byrjaði hún að koma fram sem uppistandari í heimabæ sínum og vakti þó nokkra athygli. Á þessum tíma komst hún í kynni við verk einleikjadívunnar Ruth Draper. Líkt og með marga aðra listamenn var hún heilluð af verkum hennar og átti sú upplifun þátt í að hún ákvað að fást meira við leiklistina og þá sérstaklega einleikjaformið. Árið 1965 lék hún í sjónvarpsþáttunum The Merv Griffin Show og fjórum árum síðar kom hún sér á kortið fyrir alvöru í öðrum sjónvarpsþætti. Það var í gamanþáttunum Laugh-In sem nutu mikilla vinsælda og þar skapaði Lily Tomlin margar eftirminnilegar persónur. Þar eru fremst í flokki símadaman Ernestine og hinn spaugsami fimm ára krakki Edith Ann. Báðar þessar persónur hefur hún leikið ósjaldan síðan og árið 1971 gerði hún hljómplötu með Edith í aðalhlutverki og fékk Emmy verðlaunin fyrir hana. Prakkarinn Edith kom síðan fram á annari hljómplötu úr smiðju Tomlin er nefnist That’s the Truth og naut hún ekki síður vinsælda. Hún hefur gefið út tvær grínplötur til viðbótar Modern Scream og On Stage sem inniheldur efni úr einum einleikja hennar.

Lily Tomlin frumsýndi sinn fyrsta einleik árið 1976 Appearing Nitely sem hún samdi ásamt sambýliskonu sinni Jane Wagner. Leikurinn var í raun röð aðriða með mörgum ólíkum persónum sem tengdust þó ekki. Leikurinn sló í gegn og hlaut Tony leiklistarverðlaunin. Haustið 1985 var röðin komin að leik úr smiðju Wagner og er óhætt að segja að viðtökurnar hafi farið fram úr öllum vonum þeirra. Nafn leiksins er sennilega eitt af lengri titlum í leikritasögunni en leikurinn heitir The Search for Signs of Intelligengt Life in the Universe. Sýnt var á Broadway fyrir fullu húsi kvöld eftir kvöld og leikurinn sópaði að sér öllum helstu leikhúsverðlaununum þetta leikárið, Tony, Drama Desk og Outer Critics Circle verðlaunin. Þegar aðskóknartölur leikársins voru skoðaðar kom í ljós að The Search..., hér eftir verður leikurinn nefndur þetta svo þessi grein verði nú ekki alltof löng, var ein vinsælasta sýning leikársins á Broadway. Leikurinn er ólíkur fyrsta einleiknum, Appearing Nightly, að því leiti að hér er um heilstæðara handrit að ræða, eina sögu. Í upphafi leiks kemur flækingskonan Trudy fram á sviðið með búðarkerru og fullt af pokum í fórum sínum. Hún er einskonar sögumaður sýningarinnar því innan skamms birtast fleiri persónur s.s. pönkarinn Agnes Angst og feministinn Lynn sem í fyrstu virðast ekki tengjast en allt gengur saman þegar á verkið líður. Þó Tomlin hafi hér brugðið sér í mörg hlutverk þá var hún alltaf í sama búningnum í sýningunni, skyrtu og svörtum buxum. Umskiptin milli persónanna urðu því aðeins gerð með rödd og líkamanum. Leikhús í sinni einföldustu mynd þar sem áhorfendanum gefst tækifæri til að nota ýmundanaraflið til fulls. Það skiptir hinsvegar miklu að þessi persónuskipti séu vel gerð svo áhorfendur kaupi þennan samning. Fleiri einleikarar hafa beitt þessari aðferð í gegnum tíðina m.a. landi hennar Eric Bogosian. Tomlin sagði m.a. um tilgang sýningarinnar: ,,Ég hef alltaf ætlað mér að reyna að koma ákveðnum skilaboðum til þessarar plánetu sem við búum á, og ég held að það hafi bara tekist ágætlega í þessari sýningu." Nokkrum árum síðar var The Search... kvikmyndaður og um síðustu aldamót sýndi Tomlin leikinn að nýju á Broadway. Sýningin átti stóran þátt í að vekja athygli á einleikjaforminu og möguleikum þess. Á þessum tíma voru tveir aðrir einleikarar að gera það gott áðurnefndur Eric Bogosian og gamaleikkonan vinsæla Whoopi Goldberg. Hér á landi var The Search... sýnt í Borgarleikhúsinu og heitir uppá ilhýra Leitin að vísbendingu um vitsmunalegt líf í alheiminum. Edda Björgvinsdóttir fór þar á kostum og sýndi fyrir fullu Borgarleikhúsi. Tomlin og Wagner hafa unnið mikið saman og sent frá sér hvern smellinn á fætur öðrum. Þær gerður m.a. sex vinsæla sjónvarpsþætti og einleikinn An Evening of Classic Lily Tomlin.

Einsog var getið hér í upphafi er Tomlin einkum þekkt hér á landi fyrir framlag sitt í kvikmyndum. Árið 1975 lék hún í mynd Robert Altman Nashville og var tilnefnd til Óskarsverðlauna fyrir frammistöðuna. Af öðrum vinsælum myndum má nefna All of Me, 1984, Nine to Five, 1980, Big Business, 1988, Tea with Mussolini, 1999, og A Prairie Home Companion, 2006, sjörnumprýdd mynd úr smiðju Altman. Þá eru ótaldir allir sjónvarpsþættirnir en hún hefur m.a. leikið í Fraiser, Murphy Brown, X - Files, Will & Grace og nú síðast í West Wing eða Vesturálman einsog hún nefnist í okkar kæra Sjónvarpi. Þar er hún í hlutverki ritara forseta Bandaríkjanna sem er leikinn af gæðaleikaranum Martin Sheen. Lily Tomlin hefur hlotið margvísleg verðlaun í gegnum árin m.a. fjögur Emmy verðlaun og tvö Tony verðlaun. Árið 2003 hreppti hún hin eftirsóttu Mark Twain verðlaun sem eru veitt þeim er hafa skemmt Bandaríkjamönnum vel með góðu gríni og spaugelsi. Lily Tomlin er enn á sviðinu að sýna einleiki sína og ferðast um allan heim við mikla kátínu allra er á horfa.
Heimasíða Lily Tomlin www.lilytomlin.com

BÆKUR
This is a Recording, 1971
Modern Scream, 1975
Lily Tomlin: Woman of a Thousand Faces, eftir Jeff Sorensen, 1989
The Search for Signs of Intelligent Life in the Universe, 1991

GEISLADISKAR
Lily Tomlin: On Stage
This is a Recording, 2003
Modern Scream, 2003
20 Century Masters-The Millennium Collection: The Best of Lily Tomlin, 2003

DVD
Lily Tomlin Ernestine: Peak Experiences, 1992
The Search for Signs of intelligent Life in the Universe, 1992
Lily Tomlin: Lily Sold Out, 2000
Lily Tomlin Appearing Nitely, 2000