Solo Performance Festival
Leikur einn á Suðureyri
Kómedíuleikhúsið Hafa samband English
Dagskrá Hátíðin Fréttir

James Whitmore

Höfundur:

Elfar Logi

Þegar James Whitmore var uppá sitt besta hlaut hann viðurnefnið Konungur einleikjanna. Hann lék í þremur vinsælum einleikjum í röð þar sem hann túlkaði þrjár sögufrægar persónur af stakri snilld. Hann hefur leikið í fjölda kvikmynda og hlotið margvísleg verðlaun á listamannsferli sínum. 

James Allen Whitmore fæddist í New York 1. október árið 1921. Hann stundaði laganám en þegar seinni heimstyrjöldin skall á var hann kallaður í herinn og gengdi þar stöðu offisera. Að stríði loknu innritaðist hann í leiklistarnám við American Theatre Wing. Leiklistarferilin hóf hann með trompi og hlaut serstök nýliða Tony verðlaun fyrir hlutverk sitt í Command Decision, 1948, á Broadway. Ári síðar hóf hann kvikmyndaferilinn með álíka trompi og lék í tveimur kvikmyndum. Fyrst í myndinni The Undercover Man og síðan í stríðsmyndinni Battelground og hlaut tilnefningu til Óskarsverðlauna sem besti aukaleikari. Hann hefur verið iðinn við kolann á hvíta tjaldinu allar götur síðan og leikið m.a. í ræmunum Kiss Me Kate, 1953, Oklahoma, 1955, Planet of the Apes, 1968, Tora! Tora! Tora!, 1970, og Shawshak Redemption, 1994. Whitmore hefur leikið í fjölmörgum sjónvarpsmyndum og þáttum hefur m.a. leikið vinsælum þáttum á borð við  CSI og The Practice þar sem hann hlaut Emmy verðlaun fyrir gestahlutverk.
James Whitmore hefur leikið í þremur vinsælum einleikjum þar sem hann hefur farið á kostum í gerfi sögufrægra persónna. Tríóið skipa tveir bandarískir forsetar og svo vinsæll skemmtikraftur að nafni Will Rogers.

Árið 1972 lék Whitmore í fyrsta einleik sínum um var að ræða verk um vinsælan kúreka og skemmtikraft. Leikurinn heitir einfaldlega Will Rogers - USA eftir og í leikstjórn Phaul Shyre en hann hefur einnig leikið einleiki sjálfur. Upphaflega átti Henry Fonda að leika Rogers en hann afþakkaði boðið þar sem honum fannst hann ekki henta í hlutverkið. Það fannst Whitmore einnig þar sem hann var smeikur við að túlka jafn vinsæla og skemmtilega persónu sem Rogers var og óttaðist að áhorfendur mundu ekki kaupa sig í þessu hlutverki. Þar að auki var hann ekki hrifinn af handrtinu og hafði litla sem enga trú á verkefninu. Hér sannaðist einsog oft áður að það getur verið erfitt að átta sig á handritum leikrita og stundum er það ekki fyrr en þau eru kominn uppá leiksvið sem þau virka. Það reyndist málið í einleiknum Will Rogers og áhorfendur kunnu vel að meta bæði verkið og túlkun Whitmore á húmoristanum Rogers. 

Fimm árum síðar kom annar sögulegur einleikur Give'Em Hell, Harry, 1975, um ævi og störf Harry Trumans forseta eftir Sam Gallu. Whitmore lagðist í mikla rannsóknarvinnu fyrir hlutverkið horfði á fréttamyndir af forsetanum, skoðaði ljósmyndir og hlustaði á upptökur af ræðum hans. Leikurinn var síðar kvikmyndaður og var Whitmore tilnefndur til Óskars verðlauna fyrir túlkun sína á forsetanum. Samstarfið við höfundinn Gallu gekk hins vegar ekki vel og kastaðist í kekki milli þeirra sem endaði með því að annar leikari tók við hlutverkinu áður en það komst á Broadway. Í kjölfarið stofnaði hann eigið framleiðslu fyrirtæki fyrir leiki sína í samtarfi við George Spota, Frankie Hewitt og Eileen Heckart. Fyrirtækið nefndu þau Four Star International. James Whitmore brá sér að nýju í gerfi fyrrum forseta Bandaríkjanna og nú var það Theodre Roosevelt. Leikurinn heitir Bully: An Adventure of Teddy Roosevelt eftir Jerome Alden sem var frumsýndur árið 1977. Verkið hitti beint í mark og var síðar kvikmyndað. Hann hafði þó ekki sagt skilið við Roosevelt því fyrirtæki hans setti á svið einleik um eiginkonu forsetans Eleanor með Eileen Heckart eins meðeiganda Whitmore.

Hver skyldi nú vera lykillinn að góðu gengi þessara leikja sem eiga það eitt sameiginlegt að fjalla um sögulegar en ólíkar persónur? Og afhverju fékk James Whitmore viðurnefnið Konungur einleikjanna? Fyrst og fremst er það frábær túlkun hans á þessum sögufrægu persónum sem þykir góð en fyrst og fremst sönn. Hann hermdi ekki beinlínis eftir köppunum heldur lagði aðaláherslu á að túlka persónuna sjálfa. Í viðtali við New York Times sagði hann m.a. um nálgun sína við persónurnar þrjár: ,,Ég er ekki einu sinni líkur þeim. Ég hermi heldur ekki eftir þeim bókstaflega einfaldlega vegna þess að ég get það ekki. Ég nota engan farða því ég er með ofnæmi fyrir honum. Allt og sumt sem ég geri er að láta klippa mig öðruvísi fyrir hvert hlutverk fyrir sig."
James Whitmore hefur gifst þrisvar sinnum og hafa konur hans allar verið leikkonur. Núverandi eiginkona hans er leik- og skáldkonan Noreen Nash en þau gengu í það heilaga árið 2001 sama ár og hann var áttræður. Leiklistinn er í ættinni því bæði sonur Whitmores James yngri og barnabarn hans James III eru leikarar.

DVD
Give'Em Hell Harry, 1975

GEISLADISKAR
Will Rogers' USA, 1972