Solo Performance Festival
Leikur einn á Suðureyri
Kómedíuleikhúsið Hafa samband English
Dagskrá Hátíðin Fréttir

Franca Rame

Höfundur:

Elfar Logi

Hún var án efa ein fremsta leikkona Ítala á síðustu öld og vakti sannlega athylgi fyrir verk sín um heim allan. Gift nóbelsverðlaunahafanum Dario Fo sem jafnframt var hennar helsti samstarfsmaður í leikhúsinu. Saman rituðu þau fjölmörg verk og þar af allnokkra einleiki og er Franca Rame einn fremsti einleikjalistamaður síðustu aldar.

Franca Rame fæddist 18. júlí 1928 í Parabiago. Er af mikilli leikhúsætt sem nær nokkrar aldir aftur eða um miðja 17 öld. Reyndar vildi svo til að hún fæddist einmitt í leikferð fjölskyldunnar. Faðir hennar,  Domencio Rame var höfuð hópsins og aðalleikari. Móðir Frönku, Emilia, sá um búninga auk þess að leika og vera helsti þjálfari og kennari hópsins. Börn þeirra fjögur talsins voru öll í hópnum og fengu sína skólun frá móðurinni sem á endanum sá einnig um leikhúsrekstur fjölskyldunnar. Í leikhópnum voru einnig frændur og frænkur. Á efnisskrá Rame fjölskyldunnar voru m.a. kaflar úr þekktum verkum eftir Shakespeare, Tsjekof og Pirandello. Ósjaldan lét fjölskyldan hagnað af sýningum sínum renna til góðs málefnis í samfélaginu. Ekki leið að löngu þar til Franca hóf leikferilinn en fáir hafa stigið jafnsnemma á svið eða einsog hún segir sjálf frá: ,,Ég fæddist þarna (á sviðinu), ég var bara átta daga gömul þegar ég þreytti frumraun mína í fanginu á móður minni. Ég sagði nú samt ekki margt þetta kvöld!” Og á leiksviðinu hefur hún verið síðan. Þegar Franca lék í revíusýningunni Sette giorni a Milano árið 1951 vakti einn mótleikari hennar sérstakan áhuga hennar. Og einsog í ævintýrunum tókust með þeim ástir og þremur árum síðar gekk hún uppað altarinu með leikaranum, Dario Fo. Næstu áratugina áttu þau síðan eftir að starfa saman í leikhúsinu og setja upp hvern smellinn á fætur öðrum. Ekki þó án átaka. Þau léku bæði á leiksviði og í kvikmyndum næstu árin voru m.a. í myndinni Rome, 1955. Sama ár fæddist sonur þeirra Jacopo og hefur hann fylgt í fótspor foreldranna. Starfar bæði sem leikari og leikskáld. Meðal þekktra verka hans má nefna einleikinn, Sex? Thanks, Don't Mind If I Do.

Árið 1959 stofnuðu þau eigin leikhóp Compagnia Dario Fo – Franca Rame í Mílanó. Húsbóndinn sá um handritsskrifin, leikstjórn, leikmynd og leik en Franca sá um stjórn hópsins auk þess að vera aðalleikkona hópsins. Vöktu þau fljótt athygli og ferðuðust víða um Ítalíu með sýningar sínar. Næstu árin stofnuðu þau fleiri leikflokka t.d. ferðaleikhúsið Associazione Nuova Scena en uppúr samstarfinu slitnaði vegna ólíkra stjórnmálaskoðanna innan leikhópsins og þá stofnuðu þá leikflokkinn Collettivo Teatrale La Commune. Hópurinn sýndi hvern smellinn á fætur öðrum eftir Fo og áhorfendur steymdu í leikhúsið. Enda fjölluðu leikirnir um mál samtímans og oft var fast skotið en þó allt gert í gegnum gamanleikinn. Ef eitthvað má líkja leikjum og leikstíl þeirra hjóna við hið gamla ítalska leikhúsform Commedia dell’Arte. Í þessu leikformi koma við sögu margar af frægustu fígúrum leikhússögunnar einsog Arlecchino, Pantalone, Brighella og Il Capitano. Pólitíkusar voru duglegir við að skipta sér af starfsemi hjónanna. Fylgst var sérstaklega með æfingum og sýningum flokksins. Oft dró til tíðinda en þó aldrei einsog þann 8. mars 1973 þegar Rame var rænt og henni misþyrmt á hrottalegan hátt. Þrátt fyrir það voru þau alla tíð óhrædd við að gagnrýna það sem betur mætti fara í samfélaginu ekki bara á Ítalíu heldur um heim allan. Samstarf þeirra hjóna í leikhúsinu var ávallt mjög náið og þá ekki síst í einleikjunum sem frúin sýndi við miklar vinsældir um heim allan.

Franca Rame og Dario Fo rituðu einleikina í sameiningu og beittu ýmsum aðferðum. Oft kom Rame með hugmynd að efni í leikinn og Fo byrjaði að skrifa útfrá því. Stundum gerði hún ákveðinn ramma um verkið sem Fo sagði sína skoðun á og hún lauk svo við verkið út frá gagnrýni bóndans. Megin reglan í handritsvinnunni var þó sú að endanlegt handrit varð til á sviðinu og þá útfrá viðbrögðum áhorfenda. Einsog með önnur verk Fo eru einleikir þeirra mjög pólitískir. Það er ekkert verið að fegra hlutina heldur frekar segja frá þeim einsog þeir eru og þá sérstaklega var Rame hugleikin staða kvenna í heiminum í dag. Hún var óhrædd við að gagnrýna, sama hvort það voru stjórnmálamenn eða þjónar kirkjunnar. Mannréttindamál voru henni einnig hugleikin sem og staða samtímans, vandamál og ógnir s.s. alnæmi og eiturlyf. Franca Rame var mikill feministi og baráttukona. Hún þurfti þurft oft að lýða fyrir skoðanir sínar líkt og húsbóndinn. Staða konunnar í heiminum er oft til umræðu í leikjum hennar enda var henni annt um málefnið. Einsog marka má á orðum hennar en hún sagði m.a. að draumur sinn væri að: ,,konur nytu virðingar hvar sem er, heima hjá sér, á götunum, innan fjölskyldunnar og í rúminu.” Meðal þekktra einleikja Rame og Fo má nefna The Dancing Mistress: On the Assembly Line, 1968, Michele Lu Lanzone, 1969, Fascism 1922, 1973 og The Rape, 1975. Árið 1977 var sérlega frjótt í einleikjasmiðju þeirra hjóna en þá sendu þau frá sér nokkra leiki mislanga þó. Af þeim má nefna A Woman Alone sem fjallar um stöðu konunnar heima fyrir. Konan á heimilinu virðist aðeins hafa það hlutverk að þjóna karlpeningnum. Í leiknum á hún samtal við nágranna sinn í næsta húsi sem hún ræðir við útum gluggann um leið og hún straujar og sinnir öðrum störfum. Í upphafi samtalsins lætur hún einsog allt sé slétt og fellt hjá sér. En svo fer að halla undir fæti og smá saman kemur sannleikurinn í ljós. Hún er þjónn á sínu eigin heimili. Inní samtalið fléttast svo karlar heimilisins annar þeirra, bróðir húsbóndans, húkir inní herbergi og kallar í sífellu á hana á meðan eiginmaðurinn hringir stöðugt úr vinnunni til að geta fylgst með hvað hún sé að gera. 

Aðrir leikir ársins 1977 eru Rise and Shine, The Same Old Story, Bless Me Father For I have Sinned, Medea, Alice in Wonderless Land, The Whore in the Madhouse og It Happened Tomorrow. Leikirnir hlutu mikla athygli og hún ferðaðist um Ítalíu og sýndi fyrst og fremst fyrir kynsystur sínar. Sýningarstaðirnir voru fjölbreyttir sýnt var á vinnustöðum, í litlum sölum og víðar. Í kjölfarið ferðaðist hún um heiminn bæði til Evópu og Ameríku og sýndi um 3000 sýningar í það heila. Árið 1980 frumflutti hún einleikinn A Mother sem er sérlega áhrifaríkur. Móðirin, sem leikurinn er nefndur eftir á son sem hefur tekið þátt í hryðjuverkum og hefur verið tekinn til fanga. Frásögn hennar frá heimsókninni í fangelsið er áhrifrík og veltir upp mörgum spurningum um hryðjuverk bæði þolenda og gerenda. Nokkir einleikja Rame og Fo hafa verið sýndir hér á landi. Árið 1992 sýndi leikhópurinn Skjallbandalagið nokkra einleiki undir heitinu Dónalega dúkkan. Leikfélag Akureyrar sýndi árið 1997 einn af þekktustu leikjum Rame og Fo A Woman Alone sem heitir einfaldlega uppá ástkæra Kona einsömul. Leikari var Guðbjörg Thoroddsen og Ásdís Thoroddsen leikstýrði.

Franca Rame andaðist 29. maí 2013. 

BÆKUR
A Woman Alone & Other Plays, 1991
Franca Rame: A Woman on Stage, 2000
Orgasmo Adulto Escapes from the Zoo, 1997
Staging Dario Fo and Franca Rame: Anglo - American Approaches to Political Theatre, 2005