Solo Performance Festival
Leikur einn á Suðureyri
Kómedíuleikhúsið Hafa samband English
Dagskrá Hátíðin Fréttir

Beatrice Herford

Höfundur:

Elfar Logi

Sú leikkona sem átti stóran þátt í að vinna einleiknum hylli meðal áhorfenda í upphafi síðustu aldar er Beatrice Herford. Hún ruddi brautina fyrir aðrar leikkonur og opnaði augu þeirra fyrir möguleikum einleikjafomsins. Hún vakti líka óskipta athygli þar sem kvenn einleikarar voru ekki mikið uppá pallborðinu á þeim tíma.

Herford  átti marga dygga aðdáendur innan listastéttarinnar og má þar nefna rithöfundinn Bernard Shaw og leikkonuna Ellen Terry. Þrjár leikkonur áttu eftir að fylgja í fótspor Herford ein þeirra var einleikjadífan Ruth Draper sem sagði um lærimóður sína: ,,Ég sá hana á leiksviði og þá varð mér ljóst hvað er hægt að gera." Í einleikara safni Act alone er einnig að finna grein um Draper. Hinar tvær leikkonurnar sem um ræðir eru Cornelia Otis Skinner sem einnig er gert skil í þessu safni og loks Cecelia Loftus. Allar áttu þær eftir að fylgja í einleikjaspor Herford sem hafði svo sannarlega komið áhorfendum á bragðið og sannað að leikkonur ættu alveg heima í einleiknum.

Beatrice Herford fæddist í Manchester í Englandi árið 1868 og ólst þar upp til sjö ára aldurs. Þá flutti fjölskyldan til Chicago þar sem faðir hennar sem var prestur tók við brauði. Þaðan fór hann síðan til Boston og gengdi þar embætti um tíma en loks var haldið aftur heim til Englands. Þegar til heimalandsins kom fór Beatrice Herford að fást við leiklistargyðjuna. Einleikurinn varð fyrir valinu sem hún sýndi fyrir fjölskyldufólk og í ýmisskonar skamkomum og teboðum. Árið 1895 þegar hún var 27 ára þreytti hún loks frumraun sína á alvöru leiksviði. Þá sýndi hún eigin einleiki í Sallé Erard leikhúsinu í London. Ári síðar hélt hún vestur um haf og sýndi í Boston við góðar undirtektir næstu árin eða allt til 1943. Hún lét ekki þar við sitja heldur lék á þessu fyrsta ári sínu í Ameríku í New York og Chicago. Einleikir Herford voru gamanleikir og einsog svo oft áður var efnið sótt í samtímann og daglega lífið. Áhorfendur könnuðust við persónurnar sem komu við sögu og efni leikjanna. Sumir sáu vini sína eða skyldfólk þar lifandi komið á svið en einnig kannaðist fólk líka við sjálfan sig í sumum verkunum. Þetta kunnu áhorfendur að meta og streymdu á einleiki hennar hvar sem hún kom fram. Meðal þekkra einleikja Herford má nefna The Book Agent, Lady Packing, The Bazar, The Shop Girl og In the Flower Shop.

Árið 1897 giftist hún Sidney Hayward frá Wayland í Massachusetts og að sjálfsögðu sá faðir hennar um athöfnina. Hjónin nýgiftu fluttu vestur um haf og settust að í Wayland og bjuggu þar allt til æviloka. Herford var dugleg kona og framkvædasöm því árið 1904 ákvað hún að reisa eitt stykki leikhús. Hún gerði módel af leikhúsinu sjálf og skyldi það rísa á landareign þeirra hjóna í Wayland. Allt gekk þetta eftir og 90 manna leikhús reis með öllum græjum allt frá miðasölu til búningsherberja. Hún lét ekki þar við sitja heldur stofnaði einnig leikhóp og nefndi hann Vokes Players í höfuðið á ensku gamanleikkonunni Rosina Vokes sem var í uppáhaldi hjá henni. Þessi leikflokkur er enn í fullu fjöri og er meira að segja með eigin heimasíðu. Herford var þó ekki eingöngu í einleiknum því hún lék í nokkrum leikritum á Broadway og af þeim má nefna Run Sheep, Run og Two by Two. Einnig fékkst hún nokkuð við leikstjórn. Bróðir hennar Oliver Herford var einnig fjölhæfur listamaður samdi leikrit og ljóð auk þess var hann úrvals teiknari. Árið 1943 hélt hún uppá fimmtíu ára leikafmæli sitt með einleikjasýningu í Copley Theatre í Boston. Þetta reyndist vera síðasta sinn sem hún kom fram í leikhúsi. Beatrice Herford andaðist árið 1952.

BÆKUR
Beatrice Herford's monologues, 1945
Monologues, 1908