Solo Performance Festival
Leikur einn á Suðureyri
Kómedíuleikhúsið Hafa samband English
Dagskrá Hátíðin Fréttir

Leikur einn 2004

Leiklistarhátíð í Hömrum á Ísafirði 24. - 26. júní 2004


24. júní kl. 21.00

STEINN STEINARR
Kómedíuleikhúsið
Leikari: Elfar Logi Hannesson
Handrit: Elfar Logi Hannesson, Guðjón Sigvaldason
Leikmynd og búningar: Guðjón Sigvaldason
Ljós og hljóð: Friðþjófur Þorsteinsson, Guðjón Sigvaldason
Leikstjórn: Guðjón Sigvaldason

Einleikur um eitt þekktasta og umdeildasta ljóðskáld Íslendinga á 20. öld. Handrit leiksins er nokkuð frábrugðið öðrum verkum en 98% textans er eftir Stein sjálfan. Þar er um að ræða brot úr greinum eftir Stein, 29 ljóð og brot úr viðtölum.
Steinn Steinarr eða Aðalsteinn Kristmundsson fæddist árið 1908. Þegar Steinn kom fram á ritvöllinn hóf hann þegar að brjóta reglur sem ríkt höfðu í skáldskap um langa hríð og varð mjög umdeildur fyrir vikið. Harðorðar greinar birtust í blöðum um Stein. Skáldskapur hans var kallaður tóm vitleysa af sumum, aðrir á hinn boginn fögnuðu framlagi hans og töldu að loksins væri komið fram skáld sem þyrði að breyta staðnaðri, íslenskri ljóðlist. Núna hrífast flestir af skáldskap Steins. Ljóð hans eru þjóðinni mjög kær og við mörg þeirra hafa verið samin lög. Steinn Steinarr andaðist árið 1958, rétt tæplega fimmtíu ára að aldri.


25. júní kl. 21.00

MAÐUR OG KONA; EGGLOS
Leikfélag Akureyrar
Leikari: Hildigunnur Þráinsdóttir
Höfundur: Sigurbjörg Þrastardóttir
Leikstjórn: Halldór E. Laxness

Maður og kona; egglos er einn af einleikjunum þremur sem sýndir voru hjá Leikfélagi Akureyrar á síðasta ári undir heitinu Uppistand um jafnréttismál.
Bera spjallar við áhorfendur um ágætt hjónaband sitt og Ríkharðs. Leikritið gerist í náinni framtíð þegar fundin hefur verið lausn við vaxandi frjósemisvanda mannkyns; pör þurfa einungis að hugsa um eitthvað sem tengist barnastandi þegar þau stunda kynlíf. Til dæmis, barnamat, bleyjur, rauða hunda, snuð, andvökunætur, foreldrafundi eða eitthvað slíkt. Einbeiti parið sér að þessu er það ávísun á getnað. En þar sem Bera er ekki enn orðinn ólétt, grunar hún Ríkharð um græsku. Hún vill ólm ná valdi yfir reikulum hugsunum hans og ræðst á hann, í eiginlegri og óeiginlegri merkingu, með eggjum, og þvingar hann til ásta. En Bera er ekki öll þar sem hún er séð.


26. júní kl. 15.00.

FYRIRLESTUR UM EINLEIKI
Dr. Jón Viðar Jónsson fjallar um einleikjalistina. Rekur sögu formsins, ræðir strauma og stefnur og fjallar um helstu áhrifavald einleikjalistarinnar.


26. júní kl. 17.00.

TÓNLEIKUR
Möguleikhúsið
Leikari: Stefán Örn Arnarson
Höfundar: Pétur Eggerz, Stefán Örn Arnarson
Leikmynd og búningar: Katrín Þorvaldsdóttir
Lýsing: Bjarni Ingvarsson
Hljóðmynd: Stefán Örn Arnarson
Leikstjórn: Pétur Eggerz

Tónleikur er tónleikrit. Um er að ræða nýstárlegt og spennandi leikhúsform þar sem tónlist og leikur er samofið í eina heild. Hér er tónlistarmaðurinn í nýju hlutverki sem bæði leikari og flytjandi tónlistar.
Sellóleikarinn er mættur til að halda tónleika. Á efnisskránni er svíta no. 1 í G-dúr eftir Johann Sebastian Bach. Þegar tónleikarnir hefjast er ekki allt eins og það á að vera. Tónlistarmanninum gengur illa að einbeita sér og hann virðist ekki finna samhljóm milli sín og hljóðfærisins. Áhorfandinn er leiddur um heim þar sem mörk raunveruleika og ímyndunarafls flytjandans eru óljós.