Solo Performance Festival
Leikur einn á Suðureyri
Kómedíuleikhúsið Hafa samband English
Dagskrá Hátíðin Fréttir

Hörður Torfa á eintali

Hörður Torfason er landamönnum vel kunnur en hann hefur ferðast um allt land í marga áratugi og glatt fólk með söng, leik og sögum. Það mætti kalla þetta hið eina sanna leikhús á hjólum en fáir hafa verið jafnötulir við listauppákomur á landsbyggðinni og Hörður. Þó að hann sé einkum þekktur fyrir söngva sína þá er Hörður lærður leikari og hefur m.a. leikstýrt fjölda leiksýninga hjá áhugaleikfélögum. Það er alltaf umdeilt hvað er leikhús og hvað ekki og þá ekki síður hvað er einleikur og hvað ekki. Hörður er ekki í nokkrum vafa um í hvaða flokki hann er. Hann er leikari og hann er einsmanns leikhús. Það er óhætt að segja að Hörður hafi haft mikil áhrif á tón- og leiklistarlífið í landinu og þá ekki síst einleiksformið sem hann hefur þróað og gert að sínu. Kómedíuleikarinn Elfar Logi Hannesson tók Hörð Torfa tali.

 

Þú ert einkum kunnur fyrir söngva þína en færri vita hinsvegar af því að þú ert lærður leikari. Hvenær vaknaði áhugi þinn á leikhúsinu?

Það fyrsta sem ég man sem leikhúsupplifun var Karlinn í tunglinu í Þjóðleikhúsinu og það hefur sennilega verið 1951, þegar ég var sex ára, og Árni Tryggvason stimplaði sig ævilangt inn í vitund mina. Frá barnæsku hef ég verið að flækjast um þetta land og komið víða við. Sem barn og unglingur sá ég líka áhugamannaleiksýningar hér og þar um landið og lærði margt af þeim.

 

Ég man að sem unglingur velti ég oft fyrir mér hver væri munurinn á venjulegu samtali sem ég heyrði einhversstaðar eða samtali sem var sviðsett. Ég var oft með “klippa og líma” tækni þeas. ég reyndi oft að skrifa niður samtöl sem ég heyrði og setja þau á svið. Ekki man ég árangurinn. En leikhús varð semsagt mjög fljótlega stór þáttur í minni lífsskynjun mér fannst það vera einskonar bergmál veruleikans og að bergmálið yrði oft skarpara en upphafið af því að maður gat endurskrifað það og lagað að vild. Ég hóf að semja mín eigin leikrit (og sum þeirra með söngvum) og leikstýra hinum krökkunum í götunni. Kjallarinn heima á Bergþórugötu 18 var mjög notaður sem leikhús. Svo hljóp nú aldeilis á snærið hjá mér þegar ég uppgötvaði að móðurbróðir minn var giftur alvöru leikkonu Steinunni Bjarnadóttur og hún var með skemmtilegri konum sem ég þekkti og gaf sér oft tíma til að spjalla við mig um leikhús og svo hitti ég Hallbjörgu systur hennar og lífið varð enn skemmtilegra því ég fékk að fara “á bakvið“ en það var reynsla sem var til jafns við trilljón rjómaísa og ég hefði með stóiskri ró hafnað öllum karamellum í heimi fyrir þá lífsreynslu. Þegar ég var tólf ára fengum við krakkarnir leyfi Arnfinns skólastjóra til að vera með leikhús upp á háalofti í Barnaskóla Austurbæjar og í hópnum voru tvær dætur Róberts Arnfinnssonar leikara ( sonur skólastjórans fyrrnefnda ) en hann hafði heillað mig uppúr skónum þega ég sá hann leika Góða dátann Svejk í Þjóðleikhúsinu. Ég var ekki svo lítið upp með mér þegar hann kom eitt sinn uppá háaloft að sækja stelpurnar og horfði á smábrot af leikriti sem ég var að æfa. Þrátt fyrir allan þennan áhuga minn á leiklist hvarflaði það aldrei að mér að leggja leiklist fyrir mig fyrr en um tvítugt og þá eingöngu vegna þess að aðrir voru að ýta því að mér. Margir æskufélagar mínir voru undrandi á hversvegna ég lærði ekki leiklist þeim fannst ég eiga heima þar. Þetta var til þess að ég fór að kanna málið með leiklistarskóla. Ég var fyrst í eitt ár hjá Ævari R. Kvaran í undirbúningi og síðan í þrjú ár í Leiklistarskóla Þjóðleikhússins og útskrifaðist þaðan í mai 1970.

 

 

Auk þess að ferðast um landið og leika og syngja hefur þú sett upp fjölmargar leiksýningar hjá áhugaleikfélögum um allt land. Segðu okkur aðeins frá því starfi?

Það var löngu fyrir 1970 sem ég var farinn að nota gítarinn og flytja söngva fyrir fólk hér og þar en takmarkið var svo sem ekkert annað en að hafa gaman að. Allt það breyttist auðvitað þegar ég lauk leiklistarnámi og var strax kominn með plötusamning upp á vasann. Sumarið 1970 var grunnurinn samt lagður að framtíð minni, án þess að ég gerði mér grein fyrir því, en ég var ráðinn hjá Kristínu Magnúsdóttur í enskumælandi leikhús fyrir ferðamenn sem starfrækt var í Glaumbæ og kallaðist Light Nights. Verkefnaskrá þessa leikhúss var stílfærð íslensk baðstofumenning. Mitt hlutverk í sýningunni var að sjá um tónlistina og flytja hana og kynna á ensku en hún samanstóð af íslenskum þjóðlögum og svo mínum eigin lögum sem ég var að hljóðrita þetta sumar. Til liðs við mig réði ég tvo hljóðfæraleikara. Auk þess að vera með nokkrar fastar sýningar í hverri viku þetta sumar vorum við strákarnir á þeytingi víða um landið með tónlistaratriði. Strax þá komst ég í kynni við fólk úr áhugaleikhúsum á landsbyggðinni og hafði gaman að og hreyfst af áhuga þeirra. En ég lærði á þessum tíma líka mjög mikilvægt atriði en það var að treysta á sjálfan mig. Óstundvísi og óreglusemi var allsstaðar í kringum mig og dró úr mér kjark og mátt. Reynsla mín úr leikhúsheiminum var mjög neikvæð að þessu leyti og þar sem ég er að upplagi maður sem vil sjá og finna árangur af starfi mínu skildi ég strax að ég yrði að treysta aðeins á sjálfan mig. Þessi neikvæða reynsla ók mér semsagt þor og áræði og gerði mig að einleikara fremur en nokkuð annað.

 

Ég velti mikið fyrir mér hvernig ég gæti notað menntun mina og hæfileika án þess að vera í stofnanaleikhúsi. Mér hefur alltaf fundist vera færibandayfirbragð þar á bæ. Það er ágætt til sins brúks en var ekki alveg það sem ég vildi. Ég var hrifnari af leikhúsi sem fór óhefðbundnar leiðir. Ég fór því úr landi til að kynna mér öðruvísi leikhús, lenti i Kaupmannahöfn og lenti strax, merkilega nokk, beint inn í hóp íslenskra listamanna sem voru að setja saman pólitískt leikhús, Andróklesahópurinn. Í þessum hópi voru t.d. Ólafur Haukur Símonarson, Signý Pálsdóttir, Inga Bjarnadóttir, Helga Hjörvar, Ólafur H. Torfason, Þorbjörg Höskuldsdóttir, Kolbrún Kjarval auk mín og margra annarra listamanna sem komu að verkefninu með beinum eða óbeinum hætti. Þessi leikhúsreynsla var mér gífurlega lærdómsrík og stefnumótandi.

 

Það stóð ekki til að ég færi útí leikstjórn en í nóvember 1971 höfðu samband við mig 4 strákar úr Garðabæ og báðu mig að setja upp leikrit með sér og ég sló til. Sú sýning fór að vísu aldrei á fjalirnar en leikstjórn höfðaði til mín og skömmu seinna falaðist Leikfélag Ólafsvíkur eftir mér sem leikstjóra og ég sló til og fór þangað í ársbyrjun 1972. Sem leikstjóri hjá áhugaleikfélagi gat ég nýtt alla hæfileika mína og sköpunargleði; ég bjó til leikmuni, hannaði og smíðaði leiktjöld, samdi texta og tónlist ef vantaði, hannaði lýsingu, hannaði búninga og ekki síst unnið náið með fólki í leiklist og kennt því og um leið eflt sjálfan mig sem leikhúsmann. Ég snérist strax gegn ýmsum ríkjandi hefðum og siðum í áhugaleikhúsinu á þessum tíma. Fyrir það fyrsta gat ég ekki sætt mig við að litið væri á leikhúsið sem einskonar partýklúbb þar sem drykkja var gjarna viðhöfð, ég bannaði skilyrðislaust drykkju og reykingar á æfingum. Síðan lagði ég af þann sið að taka rúmlega einn klukkutíma af hverri æfingu í tertuát og kaffi. Menn máttu hafa eitthvað matakyns á bakvið en urðu að passa innkomur sínar ég var í sal og vann. Síðan snéri ég við hlutverki hvíslarans, sem venjuleg hafði alltaf komið að vinnu sinni í síðustu viku æfinga og hafði þá mikið að gera og mest á sýningum. Ég notaði hvíslarann frá samlestri og fór síðan beint í stöður á sviði tók handrit af leikurum eftir þriðju æfingu þannig að hvíslari fékk gjarna frí frá æfingum í fimmtu og sjöttu viku. Venjan var víst sú að halda leikurum sitjandi á samlestri í tvær fyrstu vikurnar til að læra textann. Það fannst mér fráleitt því fyrir leikara er jafn nauðsynlegt að vinna að líkamstjáningu eins og textatjáningu. Aðferðir mínar skópu titring meðal reyndari leikara í byrjun en þeir voru fljótir að átta sig. Tilgangur minn með þessu var að efla sjálfstraust leikaranna, og það tókst undantekningarlaust, enda sá ég það sem einn megiþáttinn í starfi áhugaleikhússins að kenna fólkinu sem þar lagði á sig mikla vinnu, bæði sviðstækni og aga. Og síðast en ekki síst lagði ég mikla áherslu á stundvísi. Menn komu ekki nema einu sinni of seint undir minni stjórn. Síðan lagði ég áherslu á frá samlestri að skapa góða stemningu í hópnum og að hópurinn ræddi leikritið og myndaði sér skoðun á verkinu, starfsaðferðinni og leikhúsi almennt. Allir eru jafn veigamiklir í einni leiksýning. Leikstjóri er aðeins verkstjóri með þekkingu og stefnuskrá, sem auðvitað mátti og átti að gagnrýna. Margir reyndu að kafsigla þessar aðferðir mínar en eftir að hafa hafa unnið eftir þeim urðu þeir að viðurkenna gildi þeirra og jákvæð áhrif.

Þessar starfsaðferðir urðu mér reyndar til lífs á þessu landi seinna þegar ég varð persona nona grada fyrir að vera “kynvillingurinn”. Því fólk sem hafði unnið með mér að leiklist skynjaði strax og fann mjög jákvæð áhrif slíks aga. Það ræddi við mig og aðra um vinnuaðferðir mínar og sótti í þær og fann um leið alvöruna sem gerði það að verkum að vinna þeirra skilaði sér langtum betur. Og þá skipti ekki máli hvort ég væri hommi eða ekki. En þarna fór líka að myndast hjá mér sýn á verksvið mitt sem listamanns og ég fór að þróa einsmannsleikhús þar sem ekki var leikið í hefðbundnum skilningi heldur sungnar og sagðar sögur.

 

Verkefnaval áhugaleikhússsins var að breytast á þessum árum með tilkomu sjónvarps. Samanburðurinn við atvinnufólkið var of ójöfn. Innan áhugamannaleikhússins á Íslandi var að finna marga þaulreynda og mjög hæfa leikara sem ég hafði ákaflega gaman að vinna með og lærði mikið af en það sem háði þeim var að of langt leið á milli góðra hlutverka hjá þeim og þrá þeirra eftir dramatískum og krefjandi hlutverkum var ekki í samræmi við kröfur áhorfenda. Tíðarandinn var að breytast og fólk vildi mæta í leikhús til að hlæja að einhverju gríni. Stjórnir leikfélaga fóru oftar að biðja um gamanleiki þar sem aðsókn að dramatískum verkefnum hrundi. Það fór að halla undan fæti hjá áhugamannaleikhúsinu sérstaklega þeim sem næst stóðu Reykjavík. Þetta kenndi mér líka sem listamanni að setja saman dagskrá sem innihélt blöndu af fróðleik, alvöru og gamansemi.

 

Þáttur áhugamannaleikhússins var fyrir daga sjónvarpsins víðtækari og mikilvægari en í dag og þá stóðu áhugaleikarar fyrir mikilvægum flutningi dramatískra verka sem lifnuðu við í þakklátum hugum reynslulítilla áhorfenda allsstaðar um landið. Þetta er liðin tíð og ég er efins í að hún komi nokkru sinni aftur. Sá félagssandi sem hér áður fyrr hélt áhugaleikfélögum saman og fyllti félagsheimili sveitanna á hátíðarstundum hefur sest niður í letilíf sjónvarps og vídeós og röflar í gemsann sinn á skotferðum sínum til þéttbýliskjarnanna sem bjóða upp á “kostaðar” skemmtanir, því fjármálafyritæki nútímans, sem leita allra leiða að klófesta viðskiptavina, eru orðnir hinir raunverulegu leikstjórar. Tíðarandinn er að “meika það” og vera sem mest í fréttum og fara aldrei útá neina hættulega braut sköpunar og fyrirhafnar. Svo það er ekkert skrýtið að mörg áhugaleikfélög hafa einfaldlega þróast útí að verða unglingaklúbbar.

 

Í heimildarmyndinni Leikur einn sem fjallar um einleikjaformið og Act alone leiklistarhátíðina sagðir þú að þú værir ekki bara söngvaskáld heldur leikari. Að þú værir einsmannsleikhús. Segðu okkur aðeins nánar um það og hvenær þú byrjaðir að fást við einleiksformið?

Ég gekk út úr hefðbundnu stofnanaleikhúsi. Hætti að mæta á einn stað og fór að mæta á marga. Hætti að taka að mér eitthvert hlutverk sem aðrir höfðu skrifað með einhverju nafni sem ekki var mitt. Um tíma hugleiddi ég að taka mér listamannsnafnið Blær, eða Haddi. En ég hvarf frá því þar sem ég hafði stimplað mig svo rækilega inn í vitund landa minna með því að vera fyrsta manneskjan á þessu landi sem viðurkenndi opinberlga samkynhneigð sína. Mig grunaði fljótlega sem var að ég kæmist aldrei undan þeim stimpli. Það reyndist rétt. Annaðhvort var fyrir mig að fást við þetta verkefni eða hverfa af sjónarsviðinu. Ég kaus að takast á við það.

 

Með yfirlýsingu minni um eigin samkynhneigð eignaðist ég mína listrænu rödd og þannig ferðaðist ég um þetta land og vann útfrá fyrirmyndinni um íslenska baðstofuandrúmsloftið þar sem ég einn hélt leiktónleika þar sem ég sagði og söng sögur. Leikarinn Hörður Torfa samdi sitt eigið efni og flutti. Dagskrá þessara leik -tónleika var aldrei tilviljunarkennt heldur markviss framsetning til að skapa andrúmsloft umburðarlyndis og samstöðu. Lyfta aldrei putta og prédika, aldrei að nota áróður, aldrei að benda á aðra einstaklinga, heldur fjalla um tilverurétt mannsins og skapa samkennd. Til þess notaði ég öll meðul og tækni leikhúsmannsins og leiksviðsins.

 

Reyndar má segja að ég hef persónugert mig sem leikhús eftir að ég gaf út þá yfirlýsingu að ég væri samkynhneigður eða einsog kirkjunnar menn vildu kalla mig “kynvilling”. Yfirlýsing mín sjokkeraði alla þjóðina því ég kom ekki heim og saman við þá mynd sem þangað til hafði verið dreginn upp af slíku fólki. Það vantaði á mig horn og hala!

 

Það var sama hvar ég fór eftir þessa yfirlýsingu, fyrst og fremst var litið á mig sem Hommann, ekki sem manneskju eða listamann. Semsagt fyrirfram ákveðin sýn sem byggð var algjörru þekkingarleysi og trúarlegri fyrirlitningu var nokkuð sem mætti mér allsstaðar á Íslandi í þá daga.

 

Ég tók semsagt að mér að leika hlutverk sem kirkjan hafði skrifað af mikilli vanþekkingu og viðhaldið sem kúgunartæki í aldaraðir. Og svo sannarlega varð það mér lífsfylling. Ég fór semsagt útúr atvinnuleikhúsinu og gerði götur og samkomuhús bæjarfélaga landsins að leiksviði mínu og lék hlutverkið undir eigin nafni. Orðsporið var að ég var góður leikstjóri og ég vann svo sannarlega mína vinnu samviskusamlega á því sviði og flestum sem voru mér andsnúnir til mikilla leiðinda þá skandaliðseraði ég hvergi. Ég var fagmaður og stóð við mitt, blandaði ekki saman einkalífi og atvinnu. Ég hafði engu að tapa en allt að vinna. Áhugaleikhúsið hélt söngvaskáldinu uppi fjárhagslega. Þarna fór ég að skynja nýja hlið leikhússsins og nýta mér það. Ég hélt tónleika sem báru keim leiksýningar og markmiðið var að fjalla um margbreytileika mannlífsins, umburðarlyndið og neyða sjálfan mig og aðra til að horfast í augu við vanþekkinguna. Ég steig á leiksvið landsins með gítarinn að vopni og texta mína og notaðist við einlægni þeas. ég var bara ég á leiksviðinu og var þar ekki að leika neitt hlutverk, heldur vera bara ég sjálfur. Nú geta menn rifjað upp hvað Diterot sagði um eðli leikarans☺
Í byrjun var erfitt að fá aðra en húsverði á tónleikana en það var nóg því ég kom fólki á óvart með fjölbreytni og túlkun á söngvum. Framkoma mín samræmdist ekki fyrirfram ákveðnum boðskap um “kynvilling”. Það sem gaf mér mestan kjarkinn var að finna að fólk var í hjarta sínu ekki andsnúið mér sem einstaklingi heldur hafði það verið afvegaleitt af trúarlegum sótthita og fávisku. Það var fullt forvitni og undrunar og jú, margir fullir efasemda og héltu að ég væri að grínast. En svo kom að því að fólk fór að nota setninguna; þú ert allt öðruvísi en ég hélt að þú værir. Þá vissi ég að vinna mina var farin að skila árangri.

 

Af öllu þessu framangreindu hef ég alltaf litið á starf mitt sem einsmannleikhús sem ekki er að hjálpa fólki við að drepa tíma sinn heldur að gefa honum lífsfyllingu, nánd og löngun til að tilheyra hópnum og standa saman. Þora að skiptast á skoðunum, þora að fá aðra sýn á lífið. Þora að hlæja að sjálfum sér. Þora að vera maður sjálfur.

 

Hvernig hefur svo glíman við einleikinn gengið? Er ekki erfitt að standa einn á sviðinu og einfaldlega halda athygli áhorfenda?

Glíman við einleikinn hefur verið og er spennandi, krefjandi og árángursrík í gegnum árin. Og ég verð að segja alveg eins og er að eftir að hafa mætt á Act alone 2005 þá hrökk ég hressilega við. Það er ýmislegt sem ég þarf að huga að og það er á verkefnalistanum.
Svar mitt við seinni spurningunni er einfalt; nei. Mér hefur aldrei reynst erfitt að fá fólk til að hlusta og taka þátt í starfi mínu þegar það hefur gefið mér tækifæri til þess.

Erfiðleikar mínir hafa verið í kringum starfið vegna skilnings- og áhugaleysis ráðamanna þar sem ég hef farið óhefðbundnar leiðir. Allt umstangið í kringum svona starf er mikið og kallar á mikla skipulagshæfileika og útsjónarsemi og ferðalögin eru krefjandi og þreytandi. Ég hef unun að því að starfa á sviði og mæti fullur tilhlökkunar því ég kem vel undirbúinn og æfður. Tveggja tíma sviðsstarf líður alltof fljótt. Ég hef ákaflega gaman að starfi mínu. Það hefur verið mér lífsfylling. Og fram til þessa dags hef ég aldrei heyrt fólk kvarta yfir að ég haldi ekki athygli þess. Og ég man ekki til þess að hafa upplifað slíka tilfinningu.

 

Þú hefur fengist mikið við skriftir. Samið söngtexta og leikrit þar á meðal einleikinn Óvinurinn sem kom út á síðasta ári í einleikjasafninu Íslenskir einleikir. Er einhver munur á að skrifa einleik eða leikrit fyrir marga leikara?

Ég hef þurft að starfa að mestu mestu einn eftir þrítugt og þarafleiðandi skrifað að mestu fyrir sjálfan mig. Þó hef ég auðvitað skrifað leikverk fyrir marga leikara en það hefur verið í áhugaleikhúsi og þaraf leiðandi með öllum kostum þess og göllum. Ég lít svo á að höfundur í leikhúsinu þurfi sterk viðbrögð og náið samstarf við alla sem að verkinu koma til að verkið lifni. Áhugaleikhúsmanneskja sem kemur dauðþreytt á æfingu með takmarkaðan áhuga og tíma gefur ekki rétt viðbrögð. Mig dauðlangar að fara inn í atvinnuleikhús og semja verk með hópi atvinnufólks en sennilega er ekki til fjárhagslegur grunnur fyrir slíkt í dag, því miður.

 

Hvað finnst þér um einleikjaformið á Íslandi í dag?

Þetta form er farið að vera meira áberandi en það var og slíkt er aðeins af hinum góða. Ungir leikarar sem eiga erfitt með að komast á fjalir stóru leikhúsana ættu að vera ófeimnari við að takast á við það. Þetta form getur verið ákaflega beinskeitt ef menn vilja og því ættu leikarar að nýta sér það á róttækari hátt en gert hefur verið fram til þessa. Það væri gaman að fylgjast með slíkum tilþrifum. Framlag þitt á Ísafirði er aðdáunarvert og ég vona að íslenskt leikhúsfólk fari að átta sig á mikilvægi þess og auki framlag sitt og þáttöku. Megi Act alone dafna og eflast.

 

Hver er að þínu mati helsti kostur einleikjaformsins?

Hreyfanleikinn. Fyrir leikarann er það að geta verið óháðari og sjálfstæðari og hreyft sig betur um en það gerir líka miklar kröfur á hann til að halda athygli manna á starfi hans og tilgangi. Það mætti kannski kalla einleiksformið “skæruliðatækni” leikhússins því það þarf varla mikið umfangs ef rétt er á spöðum haldið, getur hreyft sig hratt og farið víða með talsvert minni kostaði en önnur leiklistarform. Einleikjaformið er ögrun bæði fyrir flytjandann og áhorfandann því það er svo nakið. Ég hef alltaf haft áhuga á pólitísku leikhúsi eða leikhúsi með heimboð um umræður, vangaveltur og hugarflug. Leikhúsi sem skemmtir um leið og það upplýsir, vekur spurningar og gefur svör. Einleikurinn er kjörið form til þess.

 

En galli?
Hvað það getur verið þreytandi fyrir einleikarann að starfa alltaf einn.

 

Hvaða ráð viltu gefa leikurum sem eru að feta sín fyrstu skref í einleiknum?
Að festa sig ekki í einhverjum fyrirframgefnum viðhorfum. Þora að stíga útfyrir rammana. Ögra sér og forminu.

 

Þú komst fram á Act alone leiklistarhátíðinni árið 2005 og fluttir leikin Sögur og söngvar frá eyjunni Æ. Hver er þín upplifun á Act alone?

Skemmtileg og ánægjurík. Gaman að fá að hitta allt þetta fólk sem ég hef ekki fengið tækifæri til að kynnast fyrr. Að fá loks tækifæri til að ræða starf mitt. Ég hafði alltaf unnið starf mitt án þess að eiga von á skilgreiningu. Að hlusta á umsagnir annarra leikhúsmann um starf mitt var mér dýrmætt. Skilja að þrátt fyrir að ég hef starfað einn í áratugi þá hef ég ekki verið einn. Einangrun mín rofnaði verulega á þessum dögum og það var mér mikill léttir. Loks hefur skapast vettfangur fyrir “öðruvísi” leikhús og möguleiki á að hitta og spjalla við annað leikhúsfólk sem er ekki upptekið af því einu að “meika það”.

 

Að lokum. Hvað er framundan?

Verkefnin eru æði mörg. Þessa daga er ég á kafi í að rifja upp ævi mína og rithöfundurinn Ævar Örn Jósepsson skrásetur. Ég er líka að vinna áfram að verkefni sem ég kalla Vitinn en þar er að finna kaflann um Ælendingana. Þessu verkefni skila ég að hluta til á geisladiskum. Tveir eru þegar komnir út Eldssaga og Loftssaga en í haust ætla ég að gefa út Jarðarsaga og þá verða eftir diskarnir Vatnssaga og Ljóshúsið. Auk þessa er ég að vinna að ýmsum verkefnum sem öll tengjast leikhúsi og það kemur bara í ljós ef þau verða að veruleika.

Svo vil ég fá að þakka fyrir þetta viðtal og biðja fólk afsökunar á því að það er frekar sundurlaust og tætingslegt.